Við í Ada fáum oft spurninguna hvað Ada standi fyrir. Í raun er félagið nefnt eftir næstu konu vikunnar!
Kona vikunnar er Ada Lovelace:
Augusta Ada King, betur þekkt sem Ada Lovelace fæddist 10. desember 1815 á Englandi. Foreldrar hennar voru stærðfræðingurinn Anne Isabella Noel Byron betur þekkt sem Lady Byron og ljóðskáldið George Gordon Byron, betur þekktur sem Lord Byron. Þau skildu þegar Ada var ungabarn en faðir hennar sóttist ekki eftir forræði yfir henni sem var óvenjulegt á þessum tíma. Lady Byron var því eiginlega eina foreldri Ada þar sem hún var ekkert í neinu sambandi við föður sinn eftir skilnaðinn. Lady Byron sá til þess að Ada legði stund á stærðfræði frá unga aldri meðal annars til að tryggja að hún fylgdi ekki í ósiðleg fótspor föður síns.
Tólf ára ákvað Ada að hún vildi fljúga. Hún kynnti sér efni á borð við pappír, víra og fjaðrir en einnig hvað hún ætti að hafa með til ferðarinnar. Hún skoðaði líka líffræði fugla til þess að sjá hvert hlutfall vængjanna þyrfti að vera miðað við líkamann. Ekki fylgir sögunni hvort Ada náði markmiðinu en þetta var aðeins byrjunin. Um 17 ára aldur byrjuðu hennar stærfræði hæfileikar og áhugi að koma fram af alvöru og setti það mark sitt á allt hennar fullorðinslíf.
Í dag er Ada einna þekktust fyrir vinnu sína við almennu fræðilegu Rökvélina (e. Analytical Engine) hans Charles Babbage. Ada var allra fyrst til að átta sig á að tölvur hafi getu umfram hreina reikninga og skrifaði fyrsta reikniritið gert til að keyra á slíkri vél. Þetta reiknirit fann Bernoulli tölur og er oft talið fyrsta forritið. Ada er því talin fyrsti forritarinn.
Höfundu greinar er Sunneva Þorsteinsdóttir