Kona vikunnar er Barbara Liskov.
Liskov fæddist 7. nóvember 1939 í Los Angeles og var elst systkina sinna. Hún byrjaði námsferil sinn í Berkeley háskólanum og útskrifaðist þaðan 1961 með BS í stærðfræði með eðlisfræði sem aukafag. Þar sat hún á skólabekk með einungis einni annarri konu en allir aðrir í náminu voru karlmenn. Tímarnir voru öðruvísi en við þekkjum þá og var henni hafnað aðgöngu í framhaldsnám í stærðfræði við Princeton eingöngu vegna þess að hún var kona og var í raun ekki ætlast til af henni að halda áfram í námi. Hún fór þá í staðinn að vinna fyrir Mitre Corporation, samtök sem sjá um rannsóknir styrktar af ríkinu. Þar fékk hún fyrst að kynnast tölvum og forritun sem átti eftir að einkenna störf hennar út lífið.
Næst lá leið hennar í Stanford í doktorsnám en árið 1968 var hún fyrsta konan í Bandaríkjunum til að fá Ph.D gráðu í tölvunarfræði. Lokaritgerðin hennar fjallaði um forrit til að spila og sigra skák. Leiðbeinandi hennar var John McCarthy sem var einn af þeim þróaði fyrst gervigreind og fékk Liskov því að vinna náið með honum og kynnast frumgerð af gervigreind á meðan dvöl hennar stóð.
Liskov ruddi brautina fyrir nútíma nálgun á að skrifa kóða en á starfsævi sinni hefur hún meðal annars hannað tvö forritunartungumál. Það fyrra var CLU, stytting á “cluster”, en þó það hafi ekki verið notað víða þá lagði það grunninn fyrir öll helstu nútíma forritunartungumál eins og C#, C++, Java og Python þar sem aðaleinkenni tungumálsins voru ítrarar (e. iterators) en er þó notað í dag undir heitinu generators. Hið seinna heitir Argus en var að mestu viðbót við CLU.
Þar að auki þróaði hún, ásamt Jeannette Wing prófessor í tölvunarfræði við Colombia háskóla, tiltekna skilgreiningu á fjölbreytni undirtaga (e. subtype polymorphism) sem var síðan þekkt undir nafninu: Skiptiregla Liskovs (e. Liskov substitution principle, LSP). Reglan útskýrir frekar hvernig víxlhæfni gagnataga virka og er í raun aðferðafræði með miklu stærðfræðiívafi sem leiddi til þróunar á hlutbundinni forritun. Öll þau verkefni sem hún kom að snerust í raun um það sama, að hjálpa forriturum að búa til fallegan kóða á skipulagðari hátt sem væri leiddur út frá rökréttum reglum. Hennar helsta markmið var að búa til hugbúnað sem hún gæti síðan sjálf haft fulla stjórn á en á sama tíma skilið flækjustig þess.
Fyrir fyrrupptalin störf sín fékk hún síðan Turing verðlaun árið 2008 en þau eru oft kölluð Nóbelsverðlaun tölvunarfræðinnar. Síðan árið 2012 fékk hún inngöngu í NIHF (National Inventors Hall of Fame) en þar eru einungis þeir sem eiga einkaleyfi á mjög mikilvægri tækni. Það hefur verið talað um hana sem ein af 50 mikilvægustu konum í vísindum og enn þann dag í dag, 80 ára að aldri, starfar hún sem prófessor við MIT.
Hér má finna flott viðtal sem var tekið við hana í nóvember síðastliðnum:
Höfundur greinar er Herdís Hanna Yngvadóttir